Byggðasamlagið SORPA
Kennitala: 510588-1189
Virðisaukaskattsnúmer:15528
Byggðasamlagið SORPA er í eigu sex sveitarfélaga; Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness. Hlutverk SORPU er að annast meðhöndlun úrgangs og sinna þannig lögbundinni skyldu sveitarfélaganna. Það felur í sér rekstur á móttöku- og flokkunarstöð, urðunarstað og sex endurvinnslustöðvum, sem reknar eru samkvæmt þjónustusamningi við sveitarfélögin. SORPA hefur einnig umsjón með grenndargámum fyrir hönd sveitarfélaganna og rekur nytjamarkaðinn Góða hirðinn og Efnismiðlun Góða hirðisins. Starfsstöðvar fyrirtækisins eru tíu talsins og eru höfuðstöðvar SORPU að Gylfaflöt 5 í Reykjavík. Dótturfyrirtæki SORPU er Metan ehf. Vorið 2020 tekur ný gas- og jarðgerðarstöð til starfa í Álfsnesi.
Stjórn SORPU bs.
Stjórn byggðasamlagsins er skipuð einum fulltrúa og einum til vara frá hverju aðildarsveitarfélagi og skal hann vera aðalmaður í sveitarstjórn eða framkvæmdastjóri sveitarfélags. Sömu skilyrði gilda um varamenn sem hver sveitarstjórn tilnefnir. Kjörtímabil stjórnar er til tveggja ára frá upphafi kjörtímabils sveitarstjórna. Stjórnarmenn fara með hlutfallslegt atkvæðavægi í samræmi við íbúafjölda þess sveitarfélags sem þeir eru fulltrúar fyrir. Atkvæðavægi endurskoðast í byrjun hvers árs miðað við íbúatölu aðildarsveitarfélags hinn 1. desember árið á undan.
Í stjórn SORPU sitja:
Líf Magneudóttir fyrir Reykjavík - formaður
Ágúst Bjarni Garðarson fyrir Hafnarfjörð - varaformaður
Birkir Jón Jónsson fyrir Kópavog
Jóna Sæmundsdóttir fyrir Garðabæ
Kolbrún G. Þorsteinsdóttir fyrir Mosfellsbæ
Bjarni Torfi Álfþórsson fyrir Seltjarnarnes
Framkvæmdastjóri er Jón Viggó Gunnarsson.
Stofnsamningur
Í stofnsamningi kemur fram að tilgangur byggðasamlagsins sé að annast meðhöndlun úrgangs sbr. lög nr. 55/2003 fyrir sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, sem öll eru stofnaðilar að því.
SORPA er starfsleyfisskylt fyrirtæki og er starfsleyfi veitt í samræmi við ákvæði 20. greinar reglugerðar nr. 785/1999 um atvinnustarfsemi sem getur haft í för með sér mengun, samanber lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Starfsleyfi nær til staðsetningar, eðli og umsvifa starfseminnar.
Starfsleyfisgjafi og eftirlitsaðili fyrir móttöku og flokkunarstöðina í Gufunesi er Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og fyrir urðunarstaðinn í Álfsnesi er það Umhverfisstofnun.
Starfsleyfi og eftirlit með endurvinnslustöðvum SORPU veita:
Í Reykjavík: Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur.
Í Kópavogi og Garðabæ: Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.
Í Mosfellsbæ: Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis.