Aukið úrgangsmagn
Á undanförnum árum hefur úrgangsmagn sem berst til SORPU aukist verulega, eða um tæp 63% á milli áranna 2014 og 2018. Efnahagur landsmanna endurspeglast að vissu leyti í úrgangsmagninu eins og sjá má á meðfylgjandi línuriti yfir þróun í magni úrgangs frá 2001-2018. Í dag fara 50,5% úrgangs hjá SORPU til endurnýtingar og tæplega helmingur fer til urðunar. Árið 2018 tók SORPA við 263 þúsund tonnum af úrgangi til meðhöndlunar frá bæði heimilum og atvinnulífinu.

Þróun úrgangsmagns sem tekið var á móti hjá SORPU árin 2001-2018. Áhrif efnahagshrunsins 2008 á úrgangsmagn á höfuðborgarsvæðinu voru umtalsverð.
Endurnýting hráefna
Tilkoma byggðasamlagsins SORPU markaði í raun þáttaskil í íslensku samfélagi og í kjölfarið fylgdi jákvæð hugarfarsbreyting gagnvart nýtingu úrgangs og aukin vitund um neikvæð umhverfisáhrif sem fylgja rangri meðferð úrgangs. Aukin þjónusta í flokkun úrgangs, fræðsla og móttökugjöld áttu sinn þátt í að vekja almenning til vitundar um forsendur endurvinnslu og endurnýtingar. Þessi þróun hófst strax í upphafi tíunda áratugarins með tilkomu endurvinnslustöðva víðsvegar um höfuðborgarsvæðið, en notkun þeirra hefur aukist jafnt og þétt hjá almenningi í gegnum árin. Nú er svo komið að endurvinnslustöðvarnar taka við mun meira magni á ári hverju en berst í gegnum sorphirðu sveitarfélaganna og 80% íbúa segjast flokka sinn úrgang að flestu eða öllu leyti.
Meginhlutverk endurvinnslustöðva er að taka á móti úrgangi til endurvinnslu eða endurnýtingar og er tekið á móti yfir þrjátíu úrgangsflokkum á stöðvunum. Sumir þeirra, t.d. timbur, pappírsefni og plast eru flutt í móttökustöðina í Gufunesi til frekari meðhöndlunar, en önnur, s.s. málmar, föt og klæði, spilliefni, raftæki, flöskur og dósir eru flutt til samstarfsaðila til meðhöndlunar og endurvinnslu.
Aukin endurnotkun
Árið 1993 hóf SORPA farsælt samstarf við fjögur líknarfélög; Hjálparstarf kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Hjálpræðisherinn og Rauða kross Íslands, um endurnýtingu nytjamuna sem annars færu í urðun. Upphaflega var fyrirkomulagið með þeim hætti að SORPA safnaði munum sem bárust á stöðvarnar og Rauði kross Íslands sá um dreifingu til þeirra sem á þurftu að halda. Með tímanum breyttist rekstarformið yfir í nytjamarkaðinn Góða hirðinn, en núverandi aðsetur hans er að Fellsmúla 28. Árið 2018 opnaði svo Efnismiðlun Góða hirðisins á endurvinnslustöðinni á Sævarhöfða en það er markaður með notuð byggingaefni og ýmsar vörur sem geta nýst til framkvæmda og listsköpunar. Tilgangur markaðarins er að koma efni í endurnýtingu áður en það fer til endurvinnslu. Endurnotkun efnis er mikilvæg aðgerð til að nýta auðlindir okkar sem best á hverjum tíma. Allur ágóði af starfsemi Góða hirðisins og Efnismiðlunarinnar rennur til góðgerðamála og er styrkjum úthlutað á hverju ári.
Framtíðin
Árið 2020 mun marka ákveðin tímamót í meðhöndlun úrgangs á höfuðborgarsvæðinu. Stjórn SORPU hefur ákveðið að frá og með árinu 2021 verði urðun á lífrænum og brennanlegum úrgangi hætt. Bygging gas- og jarðgerðarstöðvar höfuðborgarsvæðisins í Álfsnesi er langt komin, en stöðinni er ætlað að auka nýtingu heimilisúrgangs í að minnsta kosti 95% og að heildarendurnýtingarhlutfall SORPU verði að minnsta kosti 70%, miðað við magn og samsetningu úrgangs í dag. Stöðinni er ætlað að taka við lífrænum úrgangi frá heimilum til jarðgerðar og metanframleiðslu og mun hafa í för með sér byltingu í meðhöndlun úrgangs. Samhliða er unnið að stækkun móttöku- og flokkunarstöðvarinnar í Gufunesi en vegna magnaukingar úrgangs á síðustu árum er stöðin orðin of lítil, auk þess sem gas- og jarðgerðarstöðin þarfnast aukinnar forvinnslu úrgangsins í móttökustöð. Vélræn flokkun úrgangs verður aukin verulega. Meðal annars verða lífræn efni, plast, málmar og gróft brennanlegt efni aðskilin hvert frá öðru. Áætlað er að breytt vinnsla úrgangs í móttökustöð og í gas- og jarðgerðarstöð hefjist vorið 2020.

Hlutfall endurnýtingar úrgangs hjá SORPU hefur aukist jafnt og þétt í gegnum árin. Áætlað er að endurnýtingarhlutfallið fari í um 70% með tilkomu gas- og jarðgerðarstöðvarinnar árið 2020.